Lyfjagát
Á árinu bárust 348 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir.
Fjöldi alvarlegra aukaverkanatilkynninga á árinu skýrist m.a. af tilkynningum sem bárust frá Embætti landlæknis um lyfjatengd andlát yfir tveggja ára tímabil, 2021 og 2022. Sömuleiðis kom hluti alvarlegra tilkynninga frá Landspítala vegna vinnslu upplýsinga um hjartavöðva- og gollurhússbólgu, atvik sem ná yfir lengra tímabil. Fjöldi aukaverkanatilkynninga var heldur meiri á síðari hluta árs en mánuðina á undan. Það skýrist af bólusetningarátaki fyrir forgangshópa sem hófst um miðjan október. Boðið var upp á bólusetningu við bæði inflúensu og COVID-19, samtímis ef þess var óskað, og þarna var um að ræða viðkvæma hópa, 60 ára og eldri auk fólks í áhættuhópum.
Aukaverkanatilkynningar vegna dýralyfja
Dýr þurfa stundum á lyfjum að halda, eins og mannfólkið. Mikilvægt er að lyfin verki eins og þeim er ætlað, rétt eins og á við um lyf fyrir menn. Komi upp einhver frávik frá ætlaðri verkun, sem annað hvort eru augljós eða dýrið gerir vart um, er mikilvægt að tilkynna grun um aukaverkun.