Lyfjagát
Á árinu bárust 328 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir.
Á síðasta ári bárust Lyfjastofnun 328 tilkynningar um aukaverkanir, þar af voru tæp 10% eða 31 tilkynning frá læknum. Lyfjafræðingar sendu inn 119 tilkynningar, annað heilbrigðisstarfsfólk 65, neytendur 115 og loks barst ein tilkynning frá dýraeiganda. Til annarra heilbrigðisstétta teljast m.a. ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og lyfjatæknar. Af þeim tilkynningum sem bárust Lyfjastofnun árið 2024 voru fleiri frá neytendum (34%) en þær sem bárust samanlagt frá læknum (9,5%) og öðru heilbrigðisstarfsfólki (20%).

Mikilvægt að allar aukaverkanir séu tilkynntar
Mikilvægt er að allar aukaverkanir, bæði hjá mönnum og dýrum, séu tilkynntar til Lyfjastofnunar. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að áframsenda slíkar tilkynningar í evrópskan gagnagrunn þar sem markaðsleyfishafar og aðrar stofnanir geta nálgast tilkynntar aukaverkanir. Einnig vaktar lyfjastofnun tilkynningarnar með tilliti til þess hvort fram komi nýjar upplýsingar um öryggi lyfja sem krefjast nánari skoðunar með öryggi sjúklinga að leiðarljósi.
Skortur á tilkynntum aukaverkunum er þekkt vandamál í flestum löndum, þar með talið Íslandi, þar sem sýnt hefur verið fram á að einungis minnihluti meintilvika er tilkynntur til yfirvalda.
