Upplýsingamiðlun
Fagleg og hlutlaus upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks og lyfjanotenda er eitt af lögbundnum hlutverkum Lyfjastofnunar.
Upplýsingamiðlun hjá stofnuninni var með nokkuð breyttu sniði árið 2024 í kjölfar skipulagsbreytinga sem tóku gildi í upphafi árs. Samskiptadeild var lögð niður og hluti verkefna færður til þjónustuvers á sviði Fjármála- og innviða.
Traust til Lyfjastofnunar
Á ári hverju tekur Lyfjastofnun þátt í traust- og þekkingarkönnun Gallup. Könnunin var framkvæmd í upphafi ársins og kom ágætlega út. Helstu niðurstöður voru þannig að 55% sögðust bera mikið traust til Lyfjastofnunar og rúm 26% sögðust þekkja vel til starfa Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun telst þannig til stofnana sem njóta meira trausts en minni þekkingar.
Heimsókn frá fyrrum starfsfólki
Í nóvember buðum við fyrrum starfsfólki Lyfjastofnunar, 65 ára og eldri, í hádegismat og samverustund með starfsfólki. Fjölmennt var í heimsóknina og heppnaðist hún vel eins og sjá má.





Lyfjaskortur ræddur á málþingi Lyf án skaða
Málþingið "Hver ber ábyrgð á lyfjunum mínum" var haldið í október 2024 sem beint framhald af málþingi um lyfjaöryggi landsmanna og skynsamlega endurskoðun lyfjameðferða sem fór fram í október 2023.
Ólöf Þórhallsdóttir, sviðsstjóri aðgengis og öryggis hjá Lyfjastofnun flutti erindið “Lyfjaskortur - Hvernig lágmörkum við skaðann?"
Í erindinu fór Ólöf m.a. yfir lagalega ábyrgð markaðsleyfishafa og heildsöluleyfishafa að halda birgðir nauðsynlegra lyfja og tilkynna skort til Lyfjastofnunar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara. Hún segir Lyfjastofnun líta það alvarlegum augum þegar upp kemur skortur á nauðsynlegum lyfjum sem er tilkynnt um seint og afleiðing skamms fyrirvara sé lítið svigrúm til að koma í veg fyrir vandræði sjúklinga og aukin vinna heilbrigðisstarfsfólks. Talsverðan hluta vanda vegna lyfjaskorts er hægt að leysa í apótekum og þar gegnir ráðgjöf lyfjafræðinga lykilhlutverki.
Hún brýndi fyrir fundinum að til að draga úr áhrifum lyfjaskorts þurfi fyrst og fremst þrennt að koma til:
👉 að eiga nægar birgðir af nauðsynlegum lyfjum
👉 tilkynna skort með góðum fyrirvara
👉 tryggja góða samvinnu og upplýsingagjöf þeirra sem starfa við málaflokkinn
Vísindaferð Tinktúru
Í lok október tók Lyfjastofnun í fyrsta sinn á móti nemum í vísindaferð. Vel var við hæfi að vísindaferðin var á vegum Tinktúru, félags lyfjafræðinema við Háskóla Íslands. Nemarnir fengu innsýn í starfsemi Lyfjastofnunar og kynningu á fjölbreyttum störfum frá lyfjafræðingum sem starfa hjá stofnuninni. Vísindaferðin var blanda af kynningum, leikjum og spjalli og þótti takast vel.


Lyfjafræðingar kynna lyfjafræðinám
Snemma á árinu hafði lyfjafræðideild Háskóla Íslands samband við Lyfjastofnun og óskaði eftir aðkomu lyfjafræðinga hjá Lyfjastofnun að kynningarmyndbandi deildarinnar. Svarinu kölluðu tveir lyfjafræðingar sem sögðu frá reynslu sinni og störfum hjá Lyfjastofnun.

Hlaðvarp Lyfjastofnunar
Hlaðvarpið er mikilvægur miðill sem nýtist við miðlun efnis þar sem kafað er dýpra í þau málefni sem varða hlutverk stofnunarinnar. Hlaðvarpið er í umsjón Hönnu G. Sigurðardóttur. Hægt er að hlusta á hlaðvarp Lyfjastofnunar í öllum helstu streymisveitum s.s. SoundCloud, Spotify og Apple Podcast.
Á árinu voru eftirtaldir þættir gefnir út í hlaðvarpi Lyfjastofnunar:
- ADHD lyf í stórum skömmtum - Vilhjálmur Vilhjálmsson; sérfræðingar Lyfjastofnunar í lyfjagát
- Hugtakið lyf - Viðar Guðjohnsen
Alþjóðlegt átak um lyfjagát
Í ár tók Lyfjastofnun þátt í átaki Uppsala Monitoring Centre sem miðar að því að vekja athygli á lyfjagátarkerfi lyfjayfirvalda og fjölga tilkynntum aukaverkanatilkynningum. Þetta var í níunda sinn sem átakið er haldið.




Stofnun ársins
Lyfjastofnun tók þátt í könnuninni Stofnun ársins líkt og fyrri ár.
Heildarmat fyrir Lyfjastofnun var 4,11 sem er svipuð einkunn og stofnunin fékk árið á undan.
Hæstu einkunnir Lyfjastofnunar mældust í flokkunum:
- Starsfandi (4,43)
- Sveigjanleiki vinnu (4,30)
- Jafnrétti (4,33)
- Vinnuskilyrði (4,26)
- Stjórnun (4,22)
- Sjálfstæði í starfi (4,18)
Stofnun ársins er samstarfsverkefni stéttarfélagsins Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytis, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana sem taka þátt í könnuninni en hún nær til tæplega 40.000 manns á opinberum vinnumarkaði.