Skipulag og stjórnun
Vegna aðhaldsaðgerða þurfti að stokka spilin upp á nýtt og endurskipuleggja vinnu og verkferla. Allra leiða var leitað til að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. Það tókst. Skipulagi hjá Lyfjastofnun var breytt frá og með 1. febrúar 2024. Því fylgdu breytingar í stjórnendahópnum, tvö svið voru lögð niður og fólk færðist milli sviða og deilda. Þetta var gert vegna þeirra fjárhagslegu áskorana sem Lyfjastofnun stóð frammi fyrir.
Nýtt skipurit - tvö kjarnasvið
Í ljósi þess að frekari aðhaldsaðgerða var þörf, var ráðist í að endurmeta vinnu, verkferla og mönnun á hverjum stað, skoðað hvar draga mætti úr þjónustu og hvar hægt væri að færa til verkefni milli starfseininga til að ná fram aukinni skilvirkni. Þetta þýddi verulega uppstokkun á vinnustaðnum og breytingar í stjórnendahópnum.
Í nýju skipuriti voru kjarnasviðin tvö í stað fjögurra og tvö stoðsvið, eins og áður. Stjórnendum fækkaði. Verkefni kjarnasviðanna lúta í grófum dráttum annars vegar að því sem sinna þarf áður en lyf fá markaðsleyfi, hins vegar að umsýslu vegna lyfja með markaðsleyfi og/eða á markaði.
Í maí tók svo nýtt skipurit gildi. Helstu breytingar fela í sér sameiningu tveggja stoðsviða í eitt. Sameinað stoðsvið heitir Fjármál og innviðir og undir það heyra stjórnsýsla og lögfræði, fjármál, upplýsingatækni, þjónustuver, gæða- og öryggismál og skjalastjórnun. Sviðsstjóri sameinaðs sviðs er Guðrún Helga Hamar sem einnig gegnir stöðu staðgengils forstjóra.

Skipurit Lyfjastofnunar frá og með 8. ágúst 2024