Lyfjaskortur

Síðsumars og framundir lok árs var mikil og viðvarandi umræða um lyfjaskort, enda fjölgaði tilkynningum um skort verulega á árinu frá því sem áður var.

Óskað var eftir að fulltrúar Lyfjastofnunar kæmu á fund velferðarnefndar Alþingis í september til að skýra stöðu mála, en skortur á lyfjum fyrir börn hafði verið í deiglunni vikurnar á undan. Á fundinum var gerð grein fyrir lykilatriðum í því sem snýr að skyldum markaðsleyfishafa. Annars vegar að tryggja viðeigandi og stöðuga afhendingu lyfs, hins vegar að tilkynna með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara sjái viðkomandi fram á að ekki sé hægt að standa við þær skuldbindingar.

Úrræði og aðgerðir

Á fundinum með velferðarnefnd var lýst hvernig Lyfjastofnun upplýsir um tilkynntan lyfjaskort á vef sínum, og að unnið væri að lausn til að slíkar upplýsingar skili sér beint til lækna. Þá var greint frá helstu aðgerðum stofnunarinnar í því skyni að koma í veg fyrir skort eða draga úr áhrifum hans. Þar á meðal væri einfaldari skráningarferill með svokölluðum núll daga ferli, og afslættir af skráningargjöldum.

Þessu til viðbótar var í auknum mæli nýtt ákvæði 52. greinar lyfjalaga sem gerir Lyfjastofnun kleyft að heimila að lyfjafræðingar í apótekum megi breyta lyfjaávísun læknis í ávísun á undanþágulyf. Þar með þarf sá sem ávísunina fékk, ekki að leita aftur til læknisins og fá nýja ávísun, sem léttir af töluverðu amstri.

Að auki hefur Lyfjastofnun gefið út lista yfir nauðsynleg lyf sem unninn var í samvinnu við Landspítala, Embætti landlæknis og heildsala lyfja í landinu og skerpt hefur verið á upplýsingum um skyldur markaðsleyfishafa. Undanþágur hafa verið gefnar frá áletrunum lyfjapakkninga, heimildir veittar til sölu lyfja í norrænum pakkningum og tilraunaverkefni hafið með rafrænum fylgiseðlum fyrir lyf ætluð til notkunar á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

Fundir og fyrirspurnir

Í október var fundur í ráðuneytinu þar sem farið var yfir minnisblað um lyfjaskort, og síðar í mánuðinum með Frumtökum og fleiri hagsmunaaðilum um sama efni. Fjölmiðlar héldu áfram að senda fyrirspurnir um lyfjaskort fram eftir ári og almennir borgarar sömuleiðis. Því var í byrjun október birt frétt á vefnum þar sem með ítarlegum hætti var útskýrt hvaða úrræði Lyfjastofnun gæti nýtt og til hvaða aðgerða hefði verið gripið vegna lyfjaskorts.

Lyfjaskortsteymið

Framangreindar aðgerðir má segja að hafi verið meðal hins sýnilega og áþreifanlega, en bak við tjöldin var unnið gríðarlega öflugt starf hjá lyfjaskortsteymi stofnunarinnar við að fyrirbyggja að til alvarlegs skorts kæmi. Á þeim vettvangi var unnið alla daga að því að afla upplýsinga um birgðastöðu og fyrirsjáanlegan skort, auk þess sem verið var að finna leiðir til að útvega undanþágulyf í stað þeirra sem ekki voru fáanleg um tíma. Stundum skall hurð nærri hælum. Sem dæmi má nefna að teyminu tókst í lok október að koma í veg fyrir alvarlegan skort lífsnauðsynlegs lyfs.

Enn fundað um lyfjaskortsmál

Í nóvember var enn fundað með ráðuneytinu vegna lyfjaskorts og til að ræða neyðarbirgðir lyfja og lækningatækja, og fundur með fulltrúum Landspítala í desember skilaði góðum ábendingum frá þeim sem takast þurfa á við afleiðingar lyfjaskorts. Samtal og upplýsingamiðlun um lyfjaskort var mjög af hinu góða og skilaði hugmyndum um lausnir og jók skilning á því hvers eðlis vandi tengdur lyfjaskorti er. Sömuleiðis hvernig reynt er með ráðum og dáð að koma í veg fyrir skort eða draga úr áhrifum hans.

Í árslok sáust fá merki þess að staðan færi batnandi enda ljóst að nokkurn tíma tæki að vinda ofan af afleiðingum ýmissa aðstæðna sem orðið höfðu til að auka enn líkur á lyfjaskorti. Nefna má stríðið í Úkraínu, en fjöldi flóttafólks leitaði í kjölfar innrásarinnar til ríkja á EES svæðinu, fólk sem þar þurfti þiggja læknisþjónustu og lyf. Einnig var enn verið að kljást við afleiðingar COVID þar sem verksmiðjur höfðu ekki náð að fullmanna framleiðslustaði sína og ná hámarks framleiðslugetu. Þá höfðu hvers kyns pestir verið óvenju skæðar eftir að samkomutakmörkunum vegna faraldursins var aflétt, sem varð til að auka mjög þörf fyrir sýklalyf. Því blasti við að lyfjaskortsmál yrðu áfram fyrirferðarmikið verkefni hjá Lyfjastofnun líkt og hjá systurstofnunum víða um heim.

Tilkynntur lyfjaskortur

 • 0
  Fjöldi tilkynninga um lyfjaskort árið 2022
 • 0%
  Tilkynnt samdægurs eða eftir að skortur var hafinn
 • 0
  Fjöldi tilkynninga um lyfjaskort árið 2021
 • 0%
  Tilkynnt samdægurs eða eftir að skortur var hafinn árið 2021

Ástæður lyfjaskorts

Úrræði í boði vegna lyfjaskorts

Undanþágulyf

Þegar upp kemur skortur á ákveðnu lyfi sem er á markaði getur reynst nauðsynlegt að ávísa lyfi sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi eða að markaðsleyfið er til staðar en lyfið hefur ekki verið markaðssett.

Þessi lyf kallast óskráð lyf eða undanþágulyf í daglegu tali. Læknar ávísa undanþágulyfjum og þau eru hægt að kaupa í apótekum (gegn undanþáguávísun) líkt og á við um önnur lyf.

 • 0
  Fjöldi umsókna um undanþágulyf 2022
 • 0
  Fjöldi umsókna um undanþágulyf 2021
 • 0
  Fjöldi vnr. undanþágulyfja með veltu árið 2022

Breyting lyfjaávísunar úr skráðu lyfi í óskráð

Eitt af þeim úrræðum sem Lyfjastofnun getur beitt til að draga úr áhrifum lyfjaskorts er að heimila lyfjafræðingum apóteka að breyta lyfjaávísun læknis á tiltekið lyf, þannig að ávísunin gildi fyrir það undanþágulyf sem búið er að heimila. Úrræðið er einungis notað í sérstökum tilfellum þegar ljóst þykir að án aðgerða kæmi upp íþyngjandi staða fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmenn.

Þessi heimild á einungis við þegar um lyfjaávísun læknis ræðir. Ekki er heimilt að afgreiða undanþágulyf í lausasölu.

Á árinu veitti Lyfjastofnun 38 sinnum heimild til að breyta lyfjaávísun úr skráðu lyfi í óskráð, í tilfelli 12 lyfja.