Fjármál og rekstur
Árið 2022 var heildarrekstrarkostnaður Lyfjastofnunar um 1.291 milljón króna en var 1.267 milljónir árið 2021. Það samsvarar hækkun um 1,94% milli ára
Tekjur voru 1.169 milljónir króna á árinu, en voru 1.295 milljónir árið á undan. Tekjur drógust því saman um 9,73% milli ára og rekstrarniðurstaðan neikvæð um 122 milljónir. Stofnunin átti hins vegar uppsafnaðan afgang að fjárhæð 67 milljónir og nettóstaða Lyfjastofnunar var því neikvæð um 55 milljónir í árslok.
Vel tókst að halda kostnaði hjá stofnuninni innan marka þar sem rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir að kostnaður yrði 1.372 milljónir. Var hann því um 81 milljón undir áætlun (5,77%). Munar þar helst um að launakostnaður var 31,2 milljónum undir áætlun (2,86%) og ferðakostnaður 31,4 milljónum (47,88%) undir áætlun. Einnig var aðkeypt þjónusta og húsnæðiskostnaður undir áætlun (18,4m og 4,9m).
Sértekjur stofnunarinnar lækkuðu
Tekjur Lyfjastofnunar voru umtalsvert minni en áætlanir gerðu ráð fyrir og munar þar miklu um að sértekjur stofnunarinnar lækkuðu umtalsvert. Þar hafði COVID mikið að segja því ekki var hægt að fara í áætlaðar úttektir vegna takmarkana erlendis. Mannabreytingar höfðu einnig áhrif á afköst í vísindaráðgjöf. Þá hafði tímafrestur í matsferlum áhrif á lokun verkefna og því var ekki mögulegt að tekjufæra þau verkefni. Eru þau því enn viðskiptafærð.
Viðskiptafærslur jukust umtalsvert á árinu vegna klukkustopps (tímafresta) og hækkuðu þær um 75 milljónir á milli ára, eða úr 328 milljónum í 403 milljónir. Er Lyfjastofnun því með verkefni í vinnslu að verðmæti 403 milljónir.
Áskoranir í rekstri
Ljóst er að reksturinn á árinu 2022 var mjög erfiður og umfangsmikill. Mikil vinna og orka fór í húsnæðisbreytingar sem voru umtalsvert flóknari og gengu hægar en gert hafði verið ráð fyrir. Kostnaður sem féll á stofnunina varð þyngri á gjaldahliðinni en verið hefur og kostuðu breytingar á húsnæðinu um 37 milljónir á síðasta ári.
Áfram eru áskoranir í rekstrinum, s.s. áframhaldandi og aukin uppbygging innviða í tækni, til hagsbóta fyrir almenning og heilbrigðisstarfsmenn. Má þar nefna uppbyggingu á „Mínum síðum“ þar sem viðskiptavinir munu í auknum mæli geta gengið frá umsóknum og beiðnum í gegnum sérstakar fyrirtækjasíður.
Tekjuhlið stofnunarinnar hefur verið að skerðast undanfarin ár þar sem framlag úr ríkissjóði til að mæta lögbundnum verkefnum sem ekki eru fjármögnuð með gjaldskrá hafa dregist saman, bæði að raunvirði og í krónum. Árið 2021 var framlagið 345 milljónir en er samkvæmt fjárlögum 2023, 330 milljónir. Setur þetta rekstri Lyfjastofnunar þröngar skorður og vekur upp spurningar þar sem innheimta Lyfjastofnunar f.h. ríkissjóðs í formi eftirlitsgjalda, árgjalda og undanþágulyfja var árið 2022, 343 milljónir og fyrirséð að þær muni verða hærri árið 2023. Má því segja að Lyfjastofnun hafi greitt með sér í ríkissjóð árið 2022.