Lyfjabúð af meðalstærð árið 2022
Í lok árs 2022 voru starfandi 76 apótek hér á landi, þ.m.t. sjúkrahúsapótek Landspítalans. Á árinu hófu tvö ný apótek rekstur en tvö apótek hættu rekstri.
Á Íslandi eru starfandi þrjár apótekskeðjur:
- Lyf og heilsa hf. rekur 26 apótek,
- Lyfja hf. 23 apótek og
- Lyfsalinn ehf. 6 apótek.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 52 apótek starfandi, 5 á Suðurnesjum og 19 annars staðar á landsbyggðinni. Listi yfir starfandi apótek á hverjum tíma er á vef Lyfjastofnunar.
Auk apótekanna voru 29 lyfjaútibú í rekstri í landinu. Þau lyfjaútibú sem voru í rekstri árið 2022 flokkast í þrennt eftir starfsemi:
- í lyfjaútibúi í flokki 1 er starfandi lyfjafræðingur,
- í flokki 2 er lyfjatækni/þjálfuðum starfsmanni heimilt að afgreiða lyf gegn lyfseðli að undangengnu eftirliti lyfjafræðings í apóteki
- í flokki 3 fer fram afhending lyfja sem afgreidd hafa verið frá apóteki þaðan sem lyfjaútibúið er starfrækt.
Í lyfjaútibúum er auk þess heimilt að afgreiða lausasölulyf.
Á árinu voru starfrækt tvö útibú í flokki 1, fimmtán útibú í flokki 2 og tólf útibú í flokki 3. Lyfja og Lyf og heilsa eru umsvifamest í rekstri lyfjaútibúa, með 23 útibú annars vegar og 4 hins vegar. Á landsbyggðinni eru að auki fjórar lyfsölur í tengslum við rekstur heilsugæslustöðva til að tryggja lyfjadreifingu í ljósi þess að langt er í næsta apótek/lyfjaútibú.
Apótek af meðalstærð
Lyfjastofnun gerir árlega könnun um starfsemi lyfjabúða þar sem lyfsöluleyfishafar svara spurningum um ýmislegt er snýr að starfsemi þeirra. Svarhlutfall í könnuninni var 100% og má sjá meðaltöl helstu þátta í töflu 1.
Starfsfólk apóteka, lyfjaútibúa og lyfsalna
Alls störfuðu 814 manns í apótekum, lyfjatútibúum og lyfsölum árið 2022, þar af voru 252 lyfjafræðingar (31%), 58 lyfjatæknar (7%) og 504 annað starfsfólk (62%). Um 70% lyfjafræðinga störfuðu á höfuðborgarsvæðinu, en 30% á landsbyggðinni. Hlutfall lyfjatækna sem störfuðu á höfuðborgarsvæðinu var um 60% og 40% á landsbyggðinni.
Almennt þá starfa um 67% starfsmanna í afgreiðslustöðum lyfja á höfuðborgarsvæðinu en 33% á landsbyggðinni. Það hlutfall er nálægt skiptingu mannfjölda landsins árið 2022, en 64% landsmanna bjuggu á höfuðborgarsvæðinu árið 2022, en 36% á landsbyggðinni.
Fjöldi apóteka
Fjöldi apóteka í lok árs 2022 var 76 og var tveimur apótekum lokað á árinu en tvö önnur apótek hófu rekstur. Þegar fjöldi landsmanna á hvert apótek er skoðaður, kemur í ljós að hann hefur aukist um 2,3% frá árinu 2018.
Fjöldi landsmanna á hvern afgreiðslustað lyfja (alls 109) var 3.452 í árslok 2022.
Fjöldi afgreiddra lyfjaávísana
Heildarfjöldi afgreiddra ávísaðra lyfja jókst að meðaltali um 3% á milli áranna 2018 til 2020 og jókst til muna á milli áranna 2020 til 2022 eða að meðaltali um 6,6%. Uppsöfnuð fjölgun afgreiddra ávísaðra lyfja er 20,8% á tímabilinu 2018-2022.
Fólksfjöldaþróun mannfjölda á Íslandi
Þegar þróun í fjölda afgreiddra lyfjaávísana á ári er skoðuð samanborið við mannfjöldatölur á sama tíma kemur í ljós að fjölgun lyfjaávísana á tímabilinu 2018-2022 er meiri en fjölgun landsmanna. Eins og kemur fram í töflu 3, jókst fjöldi afgreiddra lyfjaávísana um tæp 21% á tímabilinu. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 8% í heild en fólki í aldurshópnum 65 ára og eldri fjölgaði um 15%.
Skipting milli landshluta
Í töflu 5 er sýnd skipting á afgreiðslustöðum lyfja á milli landsvæða. Stuðst er við skilgreiningu frá Hagsofu Íslands varðandi skiptingu landshluta. Langflest apótek er að finna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 68% apóteka eru staðsett, sem er í samræmi við mannfjölda. Í Reykjanesbæ eru fimm apótek, fimm á Akureyri, þrjú á Selfossi, tvö á Austurlandi (Egilstöðum og Neskaupstað) og eitt á Ísafirði. Lyfjaútibú eru rekin á allri landsbyggðinni, t.d. í Grindavík, Stykkishólmi, á Dalvík og Höfn. Á landsbyggðinni eru auk þess fjórar lyfsölur (Hólmavík, Vík, Kirkjubæjarklaustri og á Vopnafirði) í tengslum við rekstur heilsugæslustöðva.
Fjöldi afgreiðslustaða lyfja á hvern íbúa
Ef fjöldi afgreiðslustaða lyfja miðað við íbúafjölda er skoðaður sést að fjöldi íbúa á hvern afgreiðslustað er hæstur á höfuborgarsvæðinu eða 4.760 íbúar á hvern afgreiðslustað lyfja, m.v. mannfjöldatölur 1. janúar 2023 frá Hagstofunni og fjölda afgreiðslustaða lyfja á sama tíma. Að sama skapi eru fæstir íbúar á Austurlandi á bak við hvern afgreiðslustað en þar eru 1.247 íbúar á hvern afgreiðslustað lyfja. Taka ber fram við túlkun á þessum tölum um fjölda afgreiðslustaða lyfja m.v. íbúafjölda að þjónusta afgreiðslustaða lyfja er mjög ólík. Sem dæmi er allt önnur og meiri þjónusta veitt í apóteki en í lyfjaútibúi í flokkum 2 og 3.
Afgreiðslutími apóteka
Þrjú apótek í Reykjavík hafa opið í 112 klst. á viku. Það apótek sem hefur lengstan opnunartíma utan höfuðborgarsvæðisins er á Suðurnesjunum og er opið í 69 klst. á viku. Það apótek sem er með stystan afreiðslutíma er opið í 35 klst. á viku. Meðaltals opnunartími apótekanna var 53,4 klst á viku.
Heimildir
Niðurstöður árlegra kannanna um mönnun apóteka, framkvæmdar af Lyfjastofnun
Fólkfjöldatölur frá Hagstofu Íslands
Fjöldi lyfjaávísana frá Sjúkratryggingum Íslands