Ný dýralyfjalöggjöf
Árið 2022 öðlaðist gildi ný heildarlöggjöf um dýralyf. Í kjölfar gildistöku hófst vinna við drög að ýmsum reglugerðum ráðherra um nánari útfærslu á ákvæðum laganna.
Þann 2. mars öðlaðist gildi ný heildarlöggjöf um dýralyf. Lögin fela fyrst og fremst í sér innleiðingu á reglugerð ESB um dýralyf í íslenskan rétt. Markmið laganna er að festa enn betur í sessi reglur hérlendis um gæði og öryggi dýralyfja, með dýravelferð, umhverfisvernd og matvælaöryggi að leiðarljósi. Tekist hefur verið á við ýmsar áskoranir í þessum málaflokki á Evrópska efnahagssvæðinu undanfarin ár, og með setningu laganna er m.a. leitast við að tryggja yfirsýn skráninga, sölu og notkunar sýkingalyfja fyrir dýr, í því skyni að halda aftur af útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Með lögunum er Lyfjastofnun jafnframt heimilað að samþykkja að fenginni umsókn markaðsleyfishafa, að fylgiseðlar séu að öllu leyti rafrænir. Einnig getur Lyfjastofnun samþykkt að vissum skilyrðum uppfylltum, að áletranir á umbúðum og fylgiseðlar séu á ensku eða einhverju tungumáli hinna Norðurlandanna, að finnsku undanskilinni.
Þá fela lögin enn fremur í sér að skerpt er á þeirri verkaskiptingu sem við lýði hefur verið um langa hríð milli Lyfjastofnunar annars vegar og Matvælastofnunar hins vegar, en Matvælastofnun hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að stjórnsýslu tengdri dýralyfjum, vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar með lyfjaávísunum dýralækna.
Í kjölfar gildisstöku laga um dýralyf, hófst vinna við drög að hinum ýmsu reglugerðum sem ráðherra er ýmist skylt að setja eða hefur heimild til að setja um nánari útfærslu á nokkrum ákvæðum laganna. Má þar nefna sérstakar reglur um leyfisveitingu og framkvæmd klínískra lyfjarannsókna vegna umsókna um markaðsleyfi fyrir dýralyf, reglugerð um söfnun og notkun upplýsinga um sýkingalyf fyrir dýr, og útfærslu rafrænna fylgiseðla fyrir dýralyf, svo einhver dæmi séu tekin.