Upplýsingamiðlun
Fagleg og hlutlaus upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks og lyfjanotenda er eitt af lögbundnum hlutverkum Lyfjastofnunar.
Árið 2022 einkenndist af úrbótum í upplýsingamálum. Til samræmis við stefnu Lyfjastofnunar til næstu ára fór mikil vinna í stafræna umbreytingu. Nýjungar litu dagsins ljós og aukið var við þjónustu á ýmsan hátt. Netspjall var tekið í notkun og enski vefur stofnunarinnar var endurnýjaður í lok árs með nýju viðmóti og hönnun í samræmi við stafræna ásýnd Lyfjastofnunar. Þá var nýr ársskýrsluvefur opnaður og til þess að kóróna árið var hulunni svo svipt af nýrri sérlyfjaskrá í lok ársins.
- 0Fyrirspurnir frá fjölmiðlum
- 0Fyrirspurnir frá almenningi og fleirum
- 0Fréttir á vef Lyfjastofnunar
- 0Erindi í tölvupósthólf Lyfjastofnunar
Traust til Lyfjastofnunar
Á ári hverju tekur Lyfjastofnun þátt í traust- og þekkingarkönnun Gallup. Könnunin var framkvæmd í upphafi ársins og kom ágætlega út. Helstu niðurstöður voru þannig að heilt yfir var algengara að mælt traust lækkaði. Traust til Lyfjastofnunar stóð svo að segja í stað milli ára, eða lækkaði um 1%. Til samanburðar má geta að traust til heilbrigðiskerfisins lækkaði um 8% á sama tíma. 68% svarenda sögðust bera mikið traust til Lyfjastofnunar. 30% sögðust þekkja vel til starfsemi stofnunarinnar sem er 4-5% aukning á milli ára. Traust mælist meira meðal yngsta hópsins, 18-30 ára og þekking mest meðal 25-34 ára.
Ný merking á húsnæði stofnunarinnar
Í tengslum við húsnæðisframkvæmdir var ákveðið að endurnýja merkingu á utanverðu húsi stofnunarinnar að Vínlandsleið. Eldra merkið var komið til ára sinna og þarfnaðist lagfæringa. Þar að auki hafði merki stofnunarinnar verið endurhannað. Ný húsnæðismerking tekur mið af nýju merki og er jafnframt sýnilegra en eldra merkið sem var blátt á litinn.
Heimsókn til Lyfjafræðinema
Það er orðinn árlegur viðburður að Lyfjastofnun fái heimsókn frá lyfjafræðinemum. Vegna húsnæðisframkvæmda reyndist ekki unnt að bjóða nemunum heim þetta árið og var því brugðið á það ráð að heimsækja þá í Haga þar sem kennsla í lyfjafræði fer fram að stórum hluta. Tilgangur stefnumóts við lyfjafræðinema er að kynna fyrir þeim þau fjölbreyttu verkefni sem fara fram hjá Lyfjastofnun.
Hlaðvarp Lyfjastofnunar
Hlaðvarpið er mikilvægur miðill sem nýtist við miðlun efnis þar sem kafað er dýpra í þau málefni sem varða hlutverk stofnunarinnar. Hlaðvarpið er í umsjón Hönnu G. Sigurðardóttur. Hægt er að hlusta á hlaðvarp Lyfjastofnunar í öllum helstu streymisveitum s.s. SoundCloud, Spotify og Apple Podcast.
Á árinu voru eftirtaldir þættir gefnir út í hlaðvarpi Lyfjastofnunar:
- Lyf fyrir lítil börn í Afríku - Sveinbjörn Gizurarson
- Líftæknilyf og líftæknilyfshliðstæður - Páll Þór Ingvarsson og Sveinbjörn Gizurarson
- Aðgerðir Lyfjastofnunar til að sporna gegn lyfjaskorti - Rúna Hauksdóttir Hvannberg
- Lyf, ferðalög og sól - Jana Rós Reynisdóttir
- Hvernig er metið hvort lyf og bóluefni séu hæf til notkunar - Hrefna Guðmundsdóttir
Alþjóðlegt átak um lyfjagát
Í ár tók Lyfjastofnun þátt í átaki Uppsala Monitoring Centre sem miðar að því að vekja athygli á lyfjagátarkerfi lyfjayfirvalda og fjölga tilkynntum aukaverkanatilkynningum.
Netspjall á síðu Lyfjastofnunar
Netspjall var tekið í notkun í mars. Er því ætlað að auka þjónustu stofnunarinnar við viðskiptavini hennar. Netspjallið er opið á virkum dögum og er almennum fyrirspurnum svarað í samræmi við það sem gert er í símaþjónustu.
Þjónustusímsvörun
Símaþjónusta Lyfjastofnunar var opin á virkum dögum frá kl. 9:00 - 15:00, á sama tíma og netspjallið. Í símaþjónustu, eins og netspjalli, er almennum fyrirspurnum svarað með þeim fyrirvara að starfsmenn stofnunarinnar veita ekki persónulega klíníska ráðgjöf.
- 0Fjöldi símtala árið 2022
- 0Meðalfjöldi símtala á dag
Fundarhöld
Sérfræðingar Lyfjastofnunar héldu á árinu erindi á Læknadögum, á málþingi um lyf án skaða, og á málþingi um nikótín og heilsu.
Að auki voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum en þeir varða snertifleti Lyfjastofnunar og ólíkra hagsmunaaðila. Bæði er um að ræða hefðbundna samtalsfundi og upplýsingafundi.
- 0Erindi utan Lyfjastofnunar
- 0Fundir með hagsmunaaðilum
Jólakveðja Lyfjastofnunar
Á hverju ári velur starfsfólk Lyfjastofnunar góðgerðarmálefni sem styrkt er í desember í nafni Lyfjastofnunar. Fjármunirnir sem varið er í styrkinn færu annars í útsendingu jólakorta. Í ár rann styrkurinn til Ljóssins. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.
Stofnun ársins
Lyfjastofnun tók þátt í könnuninni Stofnun ársins líkt og fyrri ár og varð í 49. sæti af öllum þátttakendum og í 13. sæti í sínum stærðarflokki.
Heildarmat fyrir Lyfjastofnun var 4,16 sem er sama einkunn og stofnunin fékk árið á undan.
Hæstu einkunnir Lyfjastofnunar mældust í flokkunum:
- Jafnrétti (4,5)
- Stjórnun (4,42)
- Sjálfstæði í starfi (4,31)
- Sveigjanleiki í vinnu (4,29
- Ánægja og stolt (4,25)
- Starfsandi (4,25)
Stofnun ársins er samstarfsverkefni stéttarfélagsins Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytis, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana sem taka þátt í könnuninni en hún nær til tæplega 40.000 manns á opinberum vinnumarkaði.
Fjöldi fylgjenda á samfélagsmiðlum í árslok
- 0Facebook
- 0Instagram
- 0LinkedIn