Lyfjaeftirlit

Lyfjastofnun annast eftirlit með öllum apótekum, útibúum og öðrum afgreiðslustöðum lyfja. Einnig með öðrum sem koma að lyfjadreifingu og notkun svo sem öllum lyfjaframleiðslufyrirtækjum á Íslandi og þeim sem hafa heimild til innflutnings og heildsöludreifingar lyfja hérlendis. Árið var annasamt og fjölmörg verkefni tengd lyfjaeftirliti settu mark sitt á árið.

Árið í hnotskurn

  • 0
    Fjöldi úttekta
  • 0
    Fjöldi fyrirspurna vegna innflutnings einstaklinga á lyfjum
  • 0
    Útgáfa heildsöluleyfa
  • 0
    Útgáfa lyfsöluleyfa
  • 0
    Fjöldi váboða vegna lyfja

Samkvæmt lyfjalögum skulu í lyfjabúð að jafnaði vera ekki færri en tveir lyfjafræðingar að störfum á almennum afgreiðslutíma og á álagstíma utan almenns afgreiðslutíma við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Lyfjastofnun er þó heimilt, að fenginni umsókn þar um, að leyfa að í lyfjabúð starfi einungis einn lyfjafræðingur, enda sé umfang starfsemi lítið og þjálfað starfsfólk sé lyfjafræðingnum til aðstoðar.

Ákvörðun Lyfjastofnunar um synjun undanþágu frá mönnunarákvæði lyfjalaga staðfest

Forsaga málsins er sú að tvö apótek kærðu í sameiningu ákvörðun Lyfjastofnunar um mönnun. Samkvæmt gögnum málsins óskuðu kærendur eftir undanþágu frá kröfum lyfjalaga um fjölda lyfjafræðinga að störfum á almennum afgreiðslutíma, þ.e. að Lyfjastofnun veitti heimild fyrir því að einn lyfjafræðingur væri að störfum á þeim tíma í stað tveggja. Lyfjastofnun tók ákvörðun í málinu í ágúst 2021 og synjaði beiðni apótekanna um undanþágu. Sú ákvörðun var kærð til heilbrigðisráðuneytisins í nóvember sama ár. Um mitt ár 2022 ákvarðaði heilbrigðisráðuneytið í máli apótekanna á þann veg að ákvörðun Lyfjastofnunar um synjun undanþágu stendur.

Óheimilt að breyta lyfjaávísun læknis í undanþágulyf nema Lyfjastofnun hafi sérstaklega veitt heimild til þess

Lyfjastofnun getur heimilað lyfjafræðingum apóteka að breyta lyfjávísun læknis á tiltekið lyf þannig að ávísunin gildi fyrir það undanþágulyf sem búið er að heimila. Þetta er eitt af þeim úrræðum sem stofnunin getur beitt til að draga úr áhrifum lyfjaskorts. Heimildin er veitt að undangengnu mati sérfræðinga stofnunarinnar á öryggi við slíka breytingu. Úrræðið er einungis notað í sérstökum tilvikum, þegar ljóst þykir að án aðgerða kæmi upp íþyngjandi staða bæði fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmenn. Þessi heimild á einungis við þegar um lyfjaávísun læknis er að ræða. Ekki er heimilt að afgreiða undanþágulyf í lausasölu. Á árinu voru apótek minnt á að heimild Lyfjastofnunar sé forsenda þess að lyfjaávísun læknis sé breytt á þennan veg.

Mjög gott aðgengi að apótekum en tveir þriðju fá ekki ráðgjöf við lyfjakaup

Lyfjastofnun fól Gallup að annast framkvæmd könnunar um þjónustu apóteka meðal almennings í upphafi árs. Niðurstöður könnunarinnar sýndu meðal annars að mjög gott aðgengi er að apótekum en tveir þriðju fá ekki ráðgjöf við lyfjakaup.

Smásöluálagning lyfseðilsskyldra lyfja tók breytingum 1. júlí. Breytingarnar skapa hvata fyrir apótek að bjóða ódýrari lyf og að þeim fjölgi á íslenskum lyfjamarkaði. Ísland tók með þessu fyrstu skref í að færa smásöluverð nær viðmiðunarlöndum í lægstu verðflokkum.