Stefna, hlutverk og megináherslur

Á árinu fór fram stefnumótunarvinna til ársins 2025. Skerpt var á hlutverki Lyfjastofnunar ásamt því sem framtíðarsýn og megináherslur næstu ára voru skilgreindar.

Framtíðarsýn Lyfjastofnunar er að vera leiðandi afl í heilsu og velferð samfélagsins

Hlutverk Lyfjastofnunar

Hlutverk Lyfjastofnunar er að tryggja öryggi landsmanna með greiðu aðgengi að lyfjum og lækningatækjum, faglegri þjónustu og hlutlausri upplýsingagjöf byggðri á nýjustu þekkingu.

Myndræn túlkun á stefnu Lyfjastofnunar til ársins 2025

Megináherslur til ársins 2025
- Sterk ásýnd og virk upplýsingamiðlun
- Sterkir innviðir
- Eftirsókarverður vinnustaður
- Straumlínulöguð starfsemi
- Stafræn stofnun
- Öflugt innlent og erlent samstarf

Sterk ásýnd og virk upplýsingamiðlun

Leitast er við að skapa traust með samkvæmni í ákvarðanatöku, áreiðanleika, virðingu og samvinnu. Við viljum að Lyfjastofnun sé stofnun sem hægt er að treysta og vera viss um að vinnubrögðin séu öguð og fagmannleg og að ákvarðanir séu byggðar á sterkum vísindalegum grunni en ekki síður að sjálfsagt sé að leita til okkar með fyrirspurnir og álitamál og að hjá okkur fái allir fagmannlegt viðmót og persónulega þjónustu.

Annar mikilvægur liður í sterkri ásýnd er að upplýsingar frá okkur berist snemma og séu réttar. Helst viljum við að þegar mikilvægar fréttir úr lyfjaheiminum berast sé hægt að ganga að því sem vísu að við séum þegar búin að miðla upplýsingunum. Þetta gerum við með því að halda úti fjölbreyttri miðlun, á vefsíðunni okkar, á samfélagsmiðlum, í podcasti, í auglýsingum og svo mætti áfram telja. Við erum alltaf að leita fleiri leiða til að koma upplýsingum frá okkur á skilvirkan hátt.

Sterkir innviðir

Verkefni Lyfjastofnunar eru mörg, margslungin og veigamikil. Til að hægt sé að takast á við þau á öruggan og markvissan hátt er nauðsynlegt að innviðir okkar séu sterkir. Við viljum hafa hæft og vel þjálfað starfsfólk í hverju rými til að takast á við það sem til okkar kemur. Starfsfólk er sérhæft á mismunandi sviðum og getur leitað hvert til annars en þannig byggjum við upp sterka innviði með víðtækri þekkingu. Áhersla er lögð á að nýta þekkingu þvert á stofnunina þannig að besta niðurstaða náist öllum til góða.

Stafræn stofnun

Við viljum vera stafræn því í dag er hreinlega ekki lengur valkostur að vera það ekki. Fólk er orðið vant mjög góðum stafrænum lausnum hjá þeim sem skara framúr í þeim efnum og er þar af leiðandi kröfuhart þegar kemur að þjónustu. Opinberar stofnanir eru þar engin undantekning.

Að vera stafræn þýðir að hugsa alla verkferla upp á nýtt og gera þá algjörlega sjálfvirka, á netinu. Allt frá upphafi samskipta viðskiptavinar við okkur í gegnum alla bakvinnslu og til málaloka, með eins lítilli mannlegri aðkomu og mögulegt er.

Með því að gera starfsemina stafrænni er hægt að bæta þjónustu við viðskiptavini margfalt, minnka sóun, lækka kostnað, fækka villum og handtökum innanhúss þar sem upplýsingar verða aðgengilegri og auðveldara að viðhalda þeim.

Straumlínulöguð starfsemi

Eðlilegt framhald stafrænnar Lyfjastofnunar er straumlínulögun. Straumlínulögun starfsemi dregur úr hnökrum og töfum sem gætu orðið við vinnslu verkefna. Með henni er leitast við að verkefni sem upp koma flæði án mikillar mótstöðu á milli einstaklinga og teyma eftir því sem við á. Með straumlínulögun ætti að vera hægt að stytta ferla innanhúss og koma í veg fyrir að miklum tíma sé varið í að verkefni berist á ranga staði.

Eftirsóknarverður vinnustaður

Við viljum að Lyfjastofnun sé eftirsóknarverður vinnustaður. Starfsfólki okkar á að líða vel í vinnunni, það á að upplifa sig vera í réttu starfi fyrir sín áhugasvið og færni og vinnan á að veita þeim tækifæri til að vaxa og þróast. Það er okkar ósk að starfsfólkið geti stolt mælt með vinnustaðnum við aðra og að fólk sækist í að vinna með okkur. Með sterkum umsækjendum um hverja stöðu er hægt að styrkja góða starfsemi innan frá við hverja ráðningu.

Öflugt innlent og erlent samstarf

Lyfjastofnun er í miklum samskiptum við aðrar stofnanir og hagsmunaaðila sína á Íslandi. Fundað er með hagsmunaaðilum þegar breytingar eiga sér stað, Lyfjastofnun miðlar upplýsingum til heilbrigðisstarfsfólks þegar á þarf að halda og er í samvinnu við ráðuneyti, spítala og aðrar opinberar stofnanir og hefur hlutverki að gegna í mótun þeirrar þjónustu sem veitt er á heilbrigðissviði innanlands.

Eins er stofnunin í öflugu samstarfi við systurstofnanir okkar í Evrópu, fulltrúar mæta á fjölbreytta fundi erlendis og eru í ýmis konar teymisvinnu. Þar má til dæmis nefna vísindaráðgjöf af ýmsu tagi en stofnunin býr yfir gríðarlegri þekkingu innan heilbrigðisvísinda og leggur sitt af mörkum á alþjóðlegum vettvangi. Eins á stofnunin í samstarfi hvað varðar tækniinnviði og þróun þeirra til frambúðar.