Endurskoðun á smásöluálagningu lyfseðilsskyldra lyfja
Lyfjastofnun tók við verkefni Lyfjagreiðslunefndar í ársbyrjun 2021 við að ákvarða smásöluálagningu.
Lyfjastofnun tók við verkefni lyfjagreiðslunefndar í ársbyrjun 2021 við að ákvarða smásöluálagningu lyfseðilsskyldra lyfja. Eitt af markmiðum lyfjalaga er að halda lyfjakostnaði í lágmarki og við ákvörðun hámarksverðs skal Lyfjastofnun taka mið af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndum og endurmeta forsendur lyfjaverðs reglulega, eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.
Greining á þeim mikilvægu þáttum er varða smásöluálagningu lyfseðilsskyldra lyfja hófst á árinu. Áhersla var m.a. lögð á þróun smásöluálagningar undanfarin ár, stöðu á íslenskum smásölumarkaði lyfjabúða og samanburð við Norðurlöndin þar sem lögð er áhersla á að fá heildstæða mynd af bæði smásöluálagningu sem og greiðslum til lyfjabúða vegna t.d. staðsetningar í dreifbýli og þjónustugreiðslum fyrir tiltekin verk.
Þegar Lyfjastofnun tekur almennar ákvarðanir um hámarskverð og verðlagningu í smásölu skal stofnunin hafa samráð við fulltrúa lyfsöluleyfishafa og haldnir voru þrír fundir um málið á árinu.
Áætlun Lyfjastofnunar í lok árs 2021 gerði ráð fyrir því að hægt yrði að kynna breytt fyrirkomulag á fyrri hluta árs 2022.