Heildarverðendurskoðun

Við gildistöku nýrra lyfjalaga 1. janúar 2021 fékk Lyfjastofnun það hlutverk að taka ákvörðun um lyfjaverð hérlendis og endurmeta forsendur þess eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og gera tillögur um breytingar gefi matið tilefni til þess. Lyfjastofnun lét framkvæma verðendurskoðun á lyfseðilsskyldum lyfjum (að undanskildum dýralyfjum) á árinu 2021.

Verðendurskoðun var gerð með vísan til 1. mgr. 72. gr. lyfjalaga nr. 100/2020 og var framkvæmd í þremur hlutum:

1. hluti. Leyfisskyld lyf.

2. hluti. Almenn lyf, ATC-flokkar A-V.

3. hluti. Undanþágulyf.

Við verðendurskoðunina voru notaðar upplýsingar um selt magn fyrir árið 2020 og verð í lyfjaverðskrá í júní 2021 miðað við lyfjaverðskrárgengi í júní 2021. Skoðuð voru öll vörunúmer í júní lyfjaverðskrá. Vörunúmer sem höfðu veltu undir 6 milljónum kr. gátu fengið allt að 15% álag miðað við verð í viðmiðunarlöndum.

Niðurstaða heildarverðendurskoðunar

Áætlað er að verðendurskoðunin lækki lyfjakostnað um 540 milljónir kr. á ársgrundvelli, þar af eru um 413 milljónir vegna almennra lyfseðilsskyldra lyfja og um 126 milljónir vegna leyfisskyldra lyfja, (áður kölluð sjúkrahúslyf eða S-merkt lyf). Ávinningurinn skiptist á milli Sjúkratrygginga Íslands, Landspítala og sjúklinga.

Hvers vegna verðendurskoðun?

Lyfjastofnun er falið það hlutverk að endurmeta forsendur lyfjaverðs hér á landi, samanborið við sömu lyf viðmiðunarlanda eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og gera tillögur um breytingar gefi matið tilefni til þess.

Viðmiðunarlöndin eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð og er lyfjaverð á Íslandi borið saman við lyfjaverð í þessum löndum. Verðsamanburður á almennum lyfjum byggist að jafnaði á meðalverði í viðmiðunarlöndunum fjórum, en sé velta viðkomandi lyfs mjög lág er heimilt að óska eftir 15% hærra verði umfram viðmið. Við verðsamanburð á leyfisskyldum lyfjum án samnings við Landspítala er tekið mið af lægsta verði í sömu löndum en meðalverði sé lyfið á samningi.

Lyfjastofnun vil þakka þakka lyfjafyrirtækjum í landinu gott samstarf við að ná fram þessum sparnaði í þágu ríkisins og lyfjanotenda