Vísindaráðgjöf

Lyfjastofnun tekur að sér verkefni um vísindaráðgjöf sem berast til Lyfjastofnunar Evrópu, (EMA). Vísindaráðgjöf EMA er í raun hópverkefni allra aðildarlanda ESB/EES. Fyrirtæki, einstaklingar eða háskólar geta sótt um ráðgjöf um þróun nýrra lyfja eða meðferða.

Breiður hópur fagfólks innan tölfræði, læknisfræði, aðferðafræði, lyfjafræði og eiturefnafræði leitast við að gefa ráðgjöf sem samræmist regluverki EMA. Umsóknir fara fyrir vísindaráðgjafarhóp (SAWP) sem deilir hverju verkefni á tvö aðildarlönd sem gera síðan hvort sitt óháða mat á umsókninni. Á mánaðarlegum fundum hópsins eru verkefnin rædd í stærri hópi og sameiginlegt álit samið. Afgreiðslutími er almennt stuttur, 1-2 mánuðir, en stundum er umsækjanda boðið að ræða verkefnið á fundi hjá EMA áður en endanleg niðurstaða fæst. Almennt er greitt fyrir þessa þjónustu en umsóknir um þróun meðferða við sjaldgæfum sjúkdómum með takmarkaða meðferðarmöguleika þar sem þörfin er mikil en markaðurinn lítill, fá undanþágu frá greiðslu til að hvetja til slíkrar þróunar.

Vísindaráðgjöf spilar mikilvægt hlutverk í starfsemi Lyfjastofnunar

Lyfjastofnun hefur markvisst eflt þátttöku í vísindaráðgjöf síðastliðin ár. Starfsfólki sem sinnir vísindaráðgjöf hefur fjölgað og fjöldi verkefna á árinu 2021 jókst um 31% frá því á árinu á undan. Um er að ræða mjög mikilvæga tekjuöflun fyrir stofnunina.

Fjöldi verkefna um vísindaráðgjöf