Skipulag og stjórnun
Umtalsverðar breytingar urðu á skipulagi Lyfjastofnunar milli áranna 2020 og 2021. Fyrir voru eftirlitssvið, skráningarsvið, fjármála- og rekstrarsvið, og þjónustu- og miðlunarsvið (sem síðar fékk heitið umsókna- og samskiptasvið), auk skrifstofu forstjóra.
Skrifstofu forstjóra tilheyrðu m.a. klínísk deild og breytinga- og gæðastjóri. Til urðu tvö ný svið, klínískt svið sem klínsíkt mat og vísindaráðgjöf heyra undir, og gæða- og upplýsingatæknisvið, með upplýsingatæknideild, og gæða- og öryggisdeild. Síðar nefnda sviðið fékk til sín frá fjármála- og rekstarsviðiupplýsingatæknideild sem annast tölvu- og netmál, og við bættist ný gæða- og öryggisdeild, sem sinnir m.a. persónuvernd, skjalastjórnun og gæðamálum.
Heiti þjónustu- og miðlunarsviðs breyttist í umsókna- og samskiptasvið með tilkomu nýs sviðsstjóra, Ólafar Þórhallsdóttur. Þar höfðu verið fyrir verkefnastjórnunardeild og samskiptadeild, og við bættust í ársbyrjun verkefni sem tengjast verði og greiðsluþátttöku lyfja.
Gæða- og öryggissviði tilheyra upplýsingatæknideild sem og gæða- og öryggisdeild og er stýrt af Ingu Rósu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra.
Kolbeinn Guðmundsson yfirlæknir lét af störfum yfirlæknis og sviðsstjóra klíníska sviðsins á haustdögum og Hrefna Guðmundsdóttir tók við því starfi. Sindri Kristjánsson yfirlögfræðingur tók við starfi Kolbeins sem staðgengill forstjóra og stýrir auk þess stjórnsýslu og alþjóðlegu samstarfi á skrifstofu forstjóra. Mannauðsmálum stýrir Harpa Þorláksdóttir.